Mér finnst hrikalega skemmtilegt að búa til súpur.
Skera niður allskonar skemmtilegt úr ísskápnum, skutla í pott og malla í smá
tíma, krydda með dassi af hinu og þessu, peppa upp með tómatpúrru, rjómaosti,
rjóma eða bara því sem ég á við hendina. Gaman að gera slatta magn og eiga í
hádegismat daginn eftir og kannski bara líka daginn þar á eftir. Verst bara að
fólkið heima hjá mér er voðalega lítið fyrir súpur þannig ég geri þær ekki eins
oft og mig myndi langa til.
Ég fékk rosalega góða súpu um daginn hjá tengdamömmu
sem ég er búin að gera nokkrum sinnum, samt aldrei nákvæmlega eftir
uppskriftinni. Hún var reyndar í rosalega stórum hlutföllum þannig ég minnkaði
hana aðeins.
Hér kemur uppskriftin eins og ég er að malla til að
eiga fyrir kvöldið í kvöld:
2 kjúklingabringur, skornar í bita og steiktar á pönnu
1/2 rauð paprika, smátt skorin
1/2 græn paprika, smátt skorin
2 gulrætur, smátt skornar
lúka af smátt skorinni sætri kartöflu
1 hvítlauksgeiri, saxaður
1/2 laukur , smátt skorinn
1 msk olía
1 dós saxaðir tómatar
1 teningur af kjúklingakrafti
1-1/2 msk karrý
smá kjúklingakrydd
1,5 lítrar vatn
1/2 peli rjómi
1 dós tómatpúrra
100 g rjómaostu
salt og nýmalaður pipar
Elska þessa liti! :)
Aðferð:
Olían hituð í stórum potti og grænmetið steikt í smá stund. Vatninu,
tómatpúrrunni, karrýinu, kjúklingateningnum og söxuðum tómötum bætt saman við.
Þessu er leyft að malla þangað til grænmetið er orðið mjúkt og fínt eða í ca.
30 mínútur. Kjúklingnum svo bætt í súpuna þegar búið er að steikja hann á pönnu
uppúr smá olíu og kryddaður með kjúklingakryddi og salti og pipar. Allt soðið
við vægan hita í 10 mínútur. Rjóminn og rjómaosturinn fer svo síðast í og svo
kryddað með salt og pipar eftir smekk og jafnvel meira karrý ef fólk er til í
svoleiðis.
Meðlætið á þessum bæ verður svo sýrður rjómi, rifinn ostur, nachos flögur
og jafnvel heimabakað brauð ef verð í stuði á eftir og ef erfðaprinsinn
leyfir.
Þessi er bragðgóð og pínu sterk og hægt að leika sér með hana og demba bara
því í hana sem maður á þá stundina inn í ísskáp.
Mæli með henni :)
No comments:
Post a Comment