Við fjölskyldan höfum stundum pítu í matinn. Skiptumst á að hafa pítu með kjúkling eða túnfisk og eggjum, bæði hrikalega gott. Núna í gær höfðum við pítu með túnfisk og eggjum. Tek þá bara eina dós af túnfiski í vatni og sýð nokkur egg og set það grænmeti sem við eigum hverju sinni í og smá pítusósu eða sinnepssósu með. Mér finnst íslensk pítubrauð algjörlega óæt, þurr, hörð og bara engan vegin spennandi. Það varð því mikil gleði þegar mamma uppgötvaði Hatting pítubrauðin hérna í gamla daga en þau eru rosa góð.
Í gær ákvað ég hins vegar að baka pítubrauð í stað þess að nota þessi frá Herra Hatting ;) Þau eru aðeins grófari en Hatting brauðin og alveg rosalega góð.
Hér er uppskriftin:
Pítubrauð (nóg í 4 brauð)
3 dl hveiti
1 dl heilhveiti
0,5 dl sesamfræ
0,5 tsk salt
0,5 tsk sykur
1 1/4 tsk þurrger
1,5 dl volgt vatn
Öllu blandað saman og deigið látið lyfta sér í 20 mínútur. Deiginu skipt í fjóra jafnstórar kúlur og þær svo flattar út þar til þær eru svona 0,5 cm á þykkt. Raðað á bökunarplötu og látið lyfta sér aftur í 10 mínútur. Brauðin eru svo bökuð á blæstri í 5-10 mínútur á 180°C eða þar til þau eru orðin ljósbrún og mjúk og farin að blása örlítið út. Svo er bara að setja það sem manni langar í þá stundina í og njóta :)
No comments:
Post a Comment