Á föstudeginum var ég komin heim rétt fyrir hádegi, tók okkur til, útréttaði aðeins og náði svo í tjaldvagninn heim til mömmu og pabba. Ég sem hef aldrei keyrt með tjaldvagnn, hvað þá fest hann á bíl fór að hugsa, þegar ég dröslaði tjaldvagninum út úr garðinum, hvort ég væri kannski að fara aðeins fram úr sjálfum mér. Með pabba í símanum fékk ég nákvæmar leiðbeiningar um hvernig ég ætti að festa kvikindið aftan í jeppann og þegar það var búið var bara að hefja förina. Það gekk mjög vel að keyra og stoppuðum við tvisvar á leiðinni, fyrst á Hvolsvelli í matarpásu og svo á Kirkjubæjarklaustri í rólópásu. Ég er svo heppin með þessi börn að þau haga sér einstaklega vel í bíl, annað hvort sofa þau bara eða sitja bara stillt og dúlla sér með dót eða fíflast í hvort öðru. Við vorum svo komin í Skaftafell rétt fyrir átta á föstudagskvöldinu og hittum Jóa strax á bílastæðinu þar sem hann og Palli frændi hans voru að gera við stóra gula skólarútu. Að sjálfsögðu var þá bara tekinn rúnturinn um bílastæðið á henni áður en fundið var tjaldstæði þar sem við vorum fram á sunnudag. Vorum í allskonar veðri en besta veðrið var þó á sunnudaginn þegar það voru í kringum 17°C, sól og blíða. Löbbuðum við upp að Skaftafellsjökli, að Svartafossi, kíktum á Jökulsárlón, fórum í sund á Kirkjubæjarklaustri, kíktum á Dyrhólaey og höfðum það almennt huggulegt.
Hér koma nokkrar myndir frá ferðalaginu okkar :)
-R-