Fimmtudagar eru vanalegast kósýdagar hjá okkur Brynju. Hún er búin snemma í skólanum og þarf ekki að vinna neina heimavinnu. Við byrjum því yfirleitt á því að klára heimalesturinn og gera eitthvað skemmtilegt t.d. föndra, lita, perla, leika eða jafnvel horfa bara á eina skemmtilega teiknimynd. Um daginn var ég búin að lofa henni að baka eitthvað sniðugt en hún fékk vinkonu sína í heimsókn þannig við frestuðum því. Í dag ákváðum við því að skella í einhvern smá bakstur því veðrið var bara eitthvað þesslegt ;) Hún vildi ólm baka kókoskúlur en ég átti hvorki smjör né flórsykur sem þarf í þesskonar bakstur. Hins vegar átti ég til agavesýróp af einhverri ástæðu og kaldpressaða kókosolíu. Þá datt mér í hug uppskrift frá henni Sollu á Gló sem hún gerði í Með okkar augum á Rúv. Þar gerði hún súpereinfalt kókos- og hafrakonfekt sem Brynja galdraði fram með smá aðstoð frá mömmslunni.
Hérna er uppskriftin:
Kókos og hafrakonfekt
1 dl kaldpressuð kókosolía
½ dl agavesýróp
2 msk hunang
1 tsk vanilla duft eða dropar
1 ½ dl kakóduft
2 dl kókosmjöl
2 dl tröllahafrar
nokkur saltkorn
Aðferð: |
|
Setjið
kókosolíu, agavesýróp og hunang í skál. Bætið vanillu og salt út í og
hrærið saman. Bætið kakóduftinu við og látið blandast, bætið síðan
kókosmjölinu og tröllahöfrunum útí og klárið að blanda þetta saman.
Setjið í lítil konfekt eða muffinsform. Sett inn í frysti eða kæli þar til þetta hefur stífnað. Tilbúið og njótið!
Við Brynja áttum ekki muffinsform þannig við skelltum þessu bara í sílikonformið okkar góða og dúndruðum inn í frysti :) Hrikalega gott og sló á alla súkkulaðiþörf :)
No comments:
Post a Comment