Tuesday, March 26, 2013

Kjúklingabaka aka pizza ;)

Í matinn í kvöld skellti ég í eitt af mínu uppáhalds. Kjúklingaböku eða pizzu réttara sagt. Fékk æði fyrir þessu eftir að Saffran opnaði og ég smakkaði bökurnar þeirra. Ákvað að gera mína eigin útgáfu sem ég skelli í svona endrum og eins sérstaklega þegar ég á eins og eina kjúklingabringu sem ég þarf að láta duga fyrir okkur öll.

Í grunninn er þetta vel grófur pizzabotn, ofan á set ég pizzasósu sem ég poppa aðeins upp með hvítlauk, ítölsku kryddi og tómatpúrru, mozzarella ostur, kjúklingabringa í smáum bitum og smá hreinn rjómaostur. Þegar þetta er svo komið út úr ofninum dúndra ég á þetta fullt af rucola, ferskum rauðlauk, tómötum og drissla svo homemade hvílauksolíu út á. Algjörlega delissssh..... :)


Monday, March 11, 2013

Tómatlöguð kjúklingasúpa með karrý

Mér finnst hrikalega skemmtilegt að búa til súpur. Skera niður allskonar skemmtilegt úr ísskápnum, skutla í pott og malla í smá tíma, krydda með dassi af hinu og þessu, peppa upp með tómatpúrru, rjómaosti, rjóma eða bara því sem ég á við hendina. Gaman að gera slatta magn og eiga í hádegismat daginn eftir og kannski bara líka daginn þar á eftir. Verst bara að fólkið heima hjá mér er voðalega lítið fyrir súpur þannig ég geri þær ekki eins oft og mig myndi langa til.

Ég fékk rosalega góða súpu um daginn hjá tengdamömmu sem ég er búin að gera nokkrum sinnum, samt aldrei nákvæmlega eftir uppskriftinni. Hún var reyndar í rosalega stórum hlutföllum þannig ég minnkaði hana aðeins. 

Hér kemur uppskriftin eins og ég er að malla til að eiga fyrir kvöldið í kvöld:

2 kjúklingabringur, skornar í bita og steiktar á pönnu
1/2 rauð paprika, smátt skorin
1/2 græn paprika, smátt skorin
2 gulrætur, smátt skornar
lúka af smátt skorinni sætri kartöflu
1  hvítlauksgeiri, saxaður
1/2 laukur , smátt skorinn
1 msk olía
1 dós saxaðir tómatar
1 teningur af kjúklingakrafti
1-1/2 msk karrý
smá kjúklingakrydd
1,5 lítrar vatn
1/2 peli rjómi
1 dós tómatpúrra
100 g rjómaostu
salt og nýmalaður pipar

Elska þessa liti! :)


Aðferð:

Olían hituð í stórum potti og grænmetið steikt í smá stund. Vatninu, tómatpúrrunni, karrýinu, kjúklingateningnum og söxuðum tómötum bætt saman við. Þessu er leyft að malla þangað til grænmetið er orðið mjúkt og fínt eða í ca. 30 mínútur. Kjúklingnum svo bætt í súpuna þegar búið er að steikja hann á pönnu uppúr smá olíu og kryddaður með kjúklingakryddi og salti og pipar. Allt soðið við vægan hita í 10 mínútur. Rjóminn og rjómaosturinn fer svo síðast í og svo kryddað með salt og pipar eftir smekk og jafnvel meira karrý ef fólk er til í svoleiðis. 
Meðlætið á þessum bæ verður svo sýrður rjómi, rifinn ostur, nachos flögur og jafnvel heimabakað brauð ef verð í stuði á eftir og ef erfðaprinsinn leyfir.  

Þessi er bragðgóð og pínu sterk og hægt að leika sér með hana og demba bara því í hana sem maður á þá stundina inn í ísskáp. 

Mæli með henni :)

Thursday, March 7, 2013

Kókos- og hafrakonfekt

Fimmtudagar eru vanalegast kósýdagar hjá okkur Brynju. Hún er búin snemma í skólanum og þarf ekki að vinna neina heimavinnu. Við byrjum því yfirleitt á því að klára heimalesturinn og gera eitthvað skemmtilegt t.d. föndra, lita, perla, leika eða jafnvel horfa bara á eina skemmtilega teiknimynd. Um daginn var ég búin að lofa henni að baka eitthvað sniðugt en hún fékk vinkonu sína í heimsókn þannig við frestuðum því. Í dag ákváðum við því að skella í einhvern smá bakstur því veðrið var bara eitthvað þesslegt ;) Hún vildi ólm baka kókoskúlur en ég átti hvorki smjör né flórsykur sem þarf í þesskonar bakstur. Hins vegar átti ég til agavesýróp af einhverri ástæðu og kaldpressaða kókosolíu. Þá datt mér í hug uppskrift frá henni Sollu á Gló sem hún gerði í Með okkar augum á Rúv. Þar gerði hún súpereinfalt kókos- og hafrakonfekt sem Brynja galdraði fram með smá aðstoð frá mömmslunni.

Hérna er uppskriftin:

Kókos og hafrakonfekt
1 dl kaldpressuð kókosolía
½ dl agavesýróp
2 msk hunang
1 tsk vanilla duft eða dropar
1 ½ dl kakóduft
2 dl kókosmjöl
2 dl tröllahafrar
nokkur saltkorn

Aðferð:








Setjið kókosolíu, agavesýróp og hunang í skál. Bætið vanillu og salt út í og hrærið saman. Bætið kakóduftinu við og látið blandast, bætið síðan kókosmjölinu  og tröllahöfrunum útí og klárið að blanda þetta saman.
Setjið í lítil konfekt eða muffinsform. Sett inn í frysti eða kæli þar til þetta hefur stífnað. Tilbúið og njótið!

Við Brynja áttum ekki muffinsform þannig við skelltum þessu bara í sílikonformið okkar góða og dúndruðum inn í frysti :) Hrikalega gott og sló á alla súkkulaðiþörf :)

Tuesday, March 5, 2013

Akureyri

Þvílík dýrðarinnar helgi að baki. Við Jói skruppum til Akureyrar yfir helgina í barnlausa afslöppunarferð en það hefur held ég bara aldrei gerst að við höfum farið eitthvað barnlaus yfir nótt og notið þess að vera bara við tvö ein kærustuparið. Gistum á Hótel Kea í tvær nætur og vorum á bílaleigubíl frá Hertz sem Jói vann í happdrætti á jólahlaðborðinu sem hann fór á með vinnunni.

Fyrsta næturpössunin hans Jökuls var ekki ein heldur tvær nætur og mömmuhjartað pínu stressað með það en eftir að hafa heyrt í mömmu á laugardagsmorgninum og heyrt hversu góður hann var yfir nóttina þá varð ég ennþá afslappaðri. Brynja var líka algjört ljós og það auðveldaði okkur foreldrunum lífið að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að börnin væru að gera ömmu sína og afa vitlaus ;)

Helgin var æði í alla staði. Hótelið æði og morgunmaturinn mjög vel útilátinn. Veðrið gott og félagsskapurinn að sjálfsögðu bestur í heimi. Við nutum þess að sofa út, rölta um bæinn, fara í sund, út að borða, lögðum okkur meirað segja um miðjan dag, fengum okkur í glas, fórum í bíó, á barinn, á kaffihús, bíltúr og nutum þess að vera saman og spjalla saman um heima og geima.

Bílaleigubíllinn, ofsa næs!

 Herbergið okkar

 Morgunmatur

 Sæti minn í morgunmatnum

 Í göngutúr um bæinn

 Við Pollinn

 Jóinn alveg með pósurnar á hreinu

Á leiðinni út að borða á laugardagskvöldið

 Úti að borða á Bautanum á laugardagskvöldinu

Þetta er eitthvað sem við ætlum að gera aftur og þurfum að gera reglulega held ég bara til að hlaða batteríin því við komum endurnærð tilbaka. Nú er bara að vera duglegur að skoða spennandi hópkaupstilboð og skella sér á eitthað spennandi þegar þar að kemur.
Það var samt ofsa gott að koma heim og knúsa skrímslin og ákvað Jökull að vera ekkert að tvínóna við hlutina á meðan við skruppum út úr bænum því hann byrjaði að skríða á fullu og gengur núna undir nafninu Skriðjökull :)