Tuesday, February 26, 2013

Hrökkbrauð og hummus

Það var skipulagsdagur hjá Brynju í gær þannig hún var bara heima í kósý með mér og Jökli. Við ákváðum að skella í hrökkbrauð og svo bjó ég til hummus til að hafa með úr kjúklingabaunum sem ég fann inni í frysti um daginn þegar ég var að taka til þar.
Þessa hrökkbrauðsuppskrift fékk ég hjá Þóru vinkonu, klikkað góð og sjúklega einföld. Skemmir náttúrlega alls ekki fyrir að hún er alveg ger- og sykurlaus :) Brynja sá bara að mestu um þetta og var ég meira svona bara á kantinum og hafði yfirumsjón með því sem fram fór.

Brynja bakari
  
 Ready fyrir ofninn

Hummusinn er líka mjög einfaldur og mjög bragðgóður. Alls ekki olíumikill eins og mér finnst svo oft einkenna hummus og varð áferðin bara einhvernveginn fullkomin.

Hér er uppskrift af hrökkbrauðinu:

5 dl af einhverjum fræjum, ég notaði hörfræ, sólblómafræ og sesamfræ
3,5 dl hveiti/heilhveiti/spelt, ég notaði grófmalað spelt og smá heilhveiti
1 tsk salt
1 dl olía
2 dl vatn
 
Öllu blandað saman og flatt út á 2 plötur. Best er að nota bara fingurna við það því þetta er vel blautt, skera svo í sneiðar og inn í 200 gr. heitan ofn í 12-15 mín.

Og hér er uppskrift af hummusnum:

2 bollar soðnar kjúklingabaunir, allt í lagi að nota baunir úr dós, t.d. frá Sollu
5 msk Tahini
1 tsk gróft sjávarsalt
Kreistur safi úr einni sítrónu, ég notaði limesafa því ég átti ekki sítrónu
3-4 hvítlauksgeirar 
3 msk olía
1/4 bolli vatn, má vera meira eða minna bara eftir því hversu þykkur hummusinn á að vera
 
Öllu skellt í blenderinn og blandað saman þangað til áferðin er mjúk og flott. Hægt er svo að bæta smá vatni saman við ef þetta er of þykkt. 

 Hrökkbrauðið tilbúið og hummusinn líka, algjörlegt delish!

Mega einfalt, hrikalega gott og fínn biti í millimál :)



Sunday, February 24, 2013

Brúðkaupspælingar

Eftir að Jói bað mín rétt fyrir jólin 2011 hef ég verið að pæla í hvernig við myndum vilja hafa brúðkaupið okkar. Erum bæði með ákveðnar hugmyndir sem hafa lítið breyst. Spurning er bara dagsetning og gestafjöldi og það að hafa efni á þessu öllu ;) Er eiginlega ákveðin í að baka kökuna sjálf og ætla að gera tilraunastarfsemi með það á næstunni í nýju Kitchen Aid vélinni minni :p
Undanfarnar vikur hef ég samt verið að skoða brúðarkjóla á netinu til að fá hugmyndir um hvernig kjól ég myndi vilja klæðast á stóra deginum. Er ekki hrifin af þessum týpísku kjólum sem eru voða í tísku hér á landi, þ.e. þessir hlýralausu með A sniði en samkvæmt spekingum eiga þeir hins vegar að klæða íturvaxnar konur með breiðar axlir og stór brjóst, flokkur sem ég klárlega fell undir. Er hinsvegar þó nokkuð viss um að fitubollan ég verði ekki neitt voða hipp og kúl í þannig kjól.

Eftir að hafa verið að vafra um á netinu í þó nokkurn tíma er ég búin að finna þrjá kjóla sem ég stoppa alltaf við. Allir rosalega flottir en mjög ólíkir. Er samt klárlega ekki að fara að setja inn mynd af þeim hér. Er hins vegar búin að detta inn á alveg brjálæðislega ljóta kjóla sem ég bara verð að pósta myndum af.

 Dúdda mía skoh!

 Hvað er að frétta með allt dúlleríið?

Ekkert snið og hvað er málið með slaufuna?

Hef aldrei skilið þetta mermaid snið, finnst þetta ekki fara neinni konu, sama hvernig hún er í vextinum!

Hlakka til þegar ég fer á stúfana að máta og gera þetta af alvöru en ekki bara pæla í þessu :)

Saturday, February 23, 2013

Heimatilbúin pítubrauð

Við fjölskyldan höfum stundum pítu í matinn. Skiptumst á að hafa pítu með kjúkling eða túnfisk og eggjum, bæði hrikalega gott. Núna í gær höfðum við pítu með túnfisk og eggjum. Tek þá bara eina dós af túnfiski í vatni og sýð nokkur egg og set það grænmeti sem við eigum hverju sinni í og smá pítusósu eða sinnepssósu með. Mér finnst íslensk pítubrauð algjörlega óæt, þurr, hörð og bara engan vegin spennandi. Það varð því mikil gleði þegar mamma uppgötvaði Hatting pítubrauðin hérna í gamla daga en þau eru rosa góð.
Í gær ákvað ég hins vegar að baka pítubrauð í stað þess að nota þessi frá Herra Hatting ;) Þau eru aðeins grófari en Hatting brauðin og alveg rosalega góð.

Hér er uppskriftin:

Pítubrauð (nóg í 4 brauð)

3 dl hveiti
1 dl heilhveiti
0,5 dl sesamfræ
0,5 tsk salt
0,5 tsk sykur
1 1/4 tsk þurrger
1,5 dl volgt vatn

Öllu blandað saman og deigið látið lyfta sér í 20 mínútur. Deiginu skipt í fjóra jafnstórar kúlur og þær svo flattar út þar til þær eru svona 0,5 cm á þykkt. Raðað á bökunarplötu og látið lyfta sér aftur í 10 mínútur. Brauðin eru svo bökuð á blæstri í 5-10 mínútur á 180°C eða þar til þau eru orðin ljósbrún og mjúk og farin að blása örlítið út. Svo er bara að setja það sem manni langar í þá stundina í og njóta :)


Thursday, February 21, 2013

Banana- og döðlubrauð

Að baka er með því skemmtilegasta sem ég geri. Hvort sem það eru kökur eða brauðmeti þá finnst mér fátt skemmtilegra en að skoða spennandi uppskriftir og prófa þær og jafnvel breyta eftir mínu höfði. Ekki verra líka ef maður getur breytt þeim og gert þær hollari :) Fékk rosalega gott banana- og döðlubrauð um daginn sem ég ákvað að testa hérna heima. Oft eru bananabrauð stútfull af sykri en ekki þetta. Bananarnir og döðlurnar sjá alveg um að sæta brauðið. Ein svona sneið slær algjörlega á alla sykurþörf og finnst mér það best beint úr ofninum með smá smjöri og osti. Mitt brauð varð aðeins of blautt í sér þannig ég held ég minnki ab mjólkina næst og lengi jafnvel bökunartímann enn meir en ég gerði. Við Jökull fengum okkur smakk og hann elskaði þetta. Restin var svo skorin í sneiðar og sett inn í frysti og því auðvelt að grípa í eina og eina sneið þegar manni langar í eitthvað smá sætt :)

Hérna er uppskriftin:

4 vel þroskaðir bananar, stappaðir
20 döðlur, saxaðar, ég klippi þær bara niður með skærum þar sem mér leiðist ógurlega að saxa döðlur
4 msk kókosflögur, ég notaði kókosmjöl því ég átti ekki flögurnar til
4 msk haframjöl
12 msk gróft spelti
4 tsk kókosolía eða önnur olía
2 tsk vínsteinslyftiduft eða matarsódi
1-2 msk ab mjólk, má líka nota vatn
Pínu salt

Öllu blandað saman í skál og sett í aflangt brauðform. Athugið að deigið er mjög blautt. Bakað við 180 gráður, án blásturs í 24 mínútur (ég nánast tvöfaldaði tímann - fer eflaust eftir ofnum hversu lengi best er að baka þetta) t.d muffinsform eða með matskeið á bökunarpappír, gott að búa til hring af bollum. Þetta eru svona 4-6 bollur. Má líka tvöfalda uppskriftina og búa til brauð, þá er best að baka þetta í 40 min. 180 gráður án blásturs í 24 mín.
Enjoy :)

Monday, February 18, 2013

Prjóni prjón

Var að enda við að klára húfu á Jökul. Varð rosalega skotin í húfu sem ein góð vinkona mín prjónaði fyrir einn prins og ég ákvað að herma. Notaði sömu litina og eru í flísgallanum hans því ég elska þá saman, súkkulaðibrúnan og túrkisbláan. Er samt ennþá að gera upp við mig hvort ég eigi að gera fyrir eyrun og band eða kannski bara band. Tek ákvörðun þegar ég er búin að máta húfuna á Jökul. Finnst svolítið gróft að fara að vekja sofandi veikan prins bara af því mig langar til að máta á hann húfu þannig óþolinmóða ég verð bara að bíða.

Hérna er afraksturinn :)



Hérna er svo uppskriftin: http://northernpurlygirl.blogspot.com/2011/11/garter-ribbing-my-baby-hat.html

Öppdeit:  Ákvað að gera fyrir eyrun og bönd á húfuna og kláraði hana í hádeginu í dag 19. febrúar. Hérna er svo prinsinn með húfuna, bara ágætlega sáttur með þetta :)



Friday, February 15, 2013

Kjúllasalat

Jói var ekki í mat í kvöld og þegar svo er nenni ég voða sjaldan að elda bara fyrir mig og Brynju. Jökull er ennþá bara í grænmetismauki og graut og svona smakki hingað og þangað þannig það er alltaf eitthvað til fyrir hann. Ég ákvað því í dag að taka kjúllabringu út úr frystinum og gera eitthvað skemmtilegt úr henni fyrir okkur Brynju í kvöldmat. Úr varð þetta fína kjúklingasalat og notaði ég bara það sem ég átti í ísskápnum og upp í skáp. Það sem ég elska við kjúklingasalat er hvað það er hægt að hafa það fjölbreytt. Hef aldrei gert nákvæmlega þessa samsetningu áður en hún var rosa góð.

Hér kemur það sem ég notaði:

Kjúklingurinn skorinn í bita, kryddaður með kjúklingakryddi og grillaður í George Forman grillinu
Iceberg rifið niður
Rauð paprika í bitum
Tómatar í bátum
Pink Lady epli skorið afhýtt og skorið í bita
Döðlur skornar í tvennt
Ristaðar ósalataðar kasjúhnetur
Smá fetaostur

Ég vil helst enga sósu á svona salat og það var skemmtilega öðruvísi að hafa bæði epli og döðlur og var það skemmtilegur contrast á móti sterka kjúklingakryddinu sem ég notaði á kjúklingabringuna :)

Upphafið af blaðrinu

Ég hef alltaf haft gífurlega þörf fyrir að tjá mig um allt milli himins og jarðar, mismerkilegt. Er eflaust búin að gera alla vini mína klikkaða á sífelldum status öppdeitum á Facebook sem skipta enga máli og fólk er eflaust búið að fá alveg nóg af endalausum barnamyndum og montstatusum um gullin mín tvö.

Ákvað því, meira fyrir sjálfa mig en nokkurn annan, að henda upp þessu litla bloggi þar sem ég get dúndrað niður blaðrinu mínu, fréttum af sjálfri mér, börnunum mínum, myndum og matar- og bökunaruppskriftum sem ég hef gaman af að prófa og breyta þannig ég fíla þær betur.

Ég sjálf hef rosalega gaman af því að skoða blogg hjá öðrum og þá sérstaklega þar sem fólk er að deila myndum af sínu daglega lífi, upplýsingum um hönnun, uppskriftum og persónulegum sögum og verður þetta kannski eitthvað í þeim anda en samt bara á mínum forsendum :)