Monday, July 15, 2013

Óvænt ferðalag

Eftir vikudvöl upp í bústað foreldra minna í Grafningnum, fyrst með vinum okkar og svo mömmu og pabba og 2/3 af systkinum var ég ekki á því að nenna heim til mín enda komin í ógurlegan ferðagír. Jói var heima að vinna og þegar ég heyrði í honum á fimmtudeginum og hann tilkynnti mér að hann væri á leiðinni inn í Skaftafell að vinna fékk ég þá hugdettu að fara snemma heim á föstudeginum, ná í tjaldvagninn þeirra mömmu og pabba, meiri föt og mat og bruna ein með krakkana í Skaftafell og hitta Jóa þar bara og taka útilegu á þetta.

Á föstudeginum var ég komin heim rétt fyrir hádegi, tók okkur til, útréttaði aðeins og náði svo í tjaldvagninn heim til mömmu og pabba. Ég sem hef aldrei keyrt með tjaldvagnn, hvað þá fest hann á bíl fór að hugsa, þegar ég dröslaði tjaldvagninum út úr garðinum, hvort ég væri kannski að fara aðeins fram úr sjálfum mér. Með pabba í símanum fékk ég nákvæmar leiðbeiningar um hvernig ég ætti að festa kvikindið aftan í jeppann og þegar það var búið var bara að hefja förina. Það gekk mjög vel að keyra og stoppuðum við tvisvar á leiðinni, fyrst á Hvolsvelli í matarpásu og svo á Kirkjubæjarklaustri í rólópásu. Ég er svo heppin með þessi börn að þau haga sér einstaklega vel í bíl, annað hvort sofa þau bara eða sitja bara stillt og dúlla sér með dót eða fíflast í hvort öðru. Við vorum svo komin í Skaftafell rétt fyrir átta á föstudagskvöldinu og hittum Jóa strax á bílastæðinu þar sem hann og Palli frændi hans voru að gera við stóra gula skólarútu. Að sjálfsögðu var þá bara tekinn rúnturinn um bílastæðið á henni áður en fundið var tjaldstæði þar sem við vorum fram á sunnudag. Vorum í allskonar veðri en besta veðrið var þó á sunnudaginn þegar það voru í kringum 17°C, sól og blíða. Löbbuðum við upp að Skaftafellsjökli, að Svartafossi, kíktum á Jökulsárlón, fórum í sund á Kirkjubæjarklaustri, kíktum á Dyrhólaey og höfðum það almennt huggulegt.

Hér koma nokkrar myndir frá ferðalaginu okkar :)















-R-


Friday, June 14, 2013

LKL



Lengi vel hef ég verið of þung og hef ég prófað ýmislegt í gegnum tíðina til að minnka bumbuna. Ég er soldið þannig að ég verð að sjá árangur sem fyrst til að nenna að halda því áfram sem ég er að gera. Ég hef lagt mikið upp úr hollum mat hérna heima við, ávöxtum, grænmeti, mjólkurvörum án viðbæts sykurs og svo framvegis, leyft mér smá óhollustu um helgar og þessháttar en þrátt fyrir það hefur lítið sem ekkert gerst á vigtinni, ekki það að kíló skipti öllu.

Allavega ákvað ég að prófa það nýjasta nýtt sem virðist vera að tröllríða landanum þessa dagana sem er LKL eða lágkolvetna lífsstíll. Eftir tvær, þrjár vikur af því að lesa mér til um þennan lífsstíl og kynna mér hann vel og að Jói kom heim með bókina hans Gunnars Más ákvað ég að skella mér í fjörið og oh boj oh boj. Eftir eina viku fóru hátt í 2 kg, ég er aldrei svöng, borða bragðgóðan og skemmtilegan mat og leik mér af því að búa til allskonar gúmmelaði í eldhúsinu. Bókin er æði, með fullt af skemmtilegum uppskriftum og full af fróðleik. Ég skoða líka töluvert bloggið hennar Maríu Kristu og fæ inspiration af bragðgóðum og skemmtilegum mat :)

Eins og staðan er núna finnst mér þetta æði og ætla að halda ótrauð áfram :) Mæli með þessu fyrir þá sem vilja prófa :)



Thursday, May 2, 2013

Home improvement!

Ég hef alltaf verið algjör sökker fyrir því að breyta inni hjá mér og gerði það mikið sem krakki að taka herbergið mitt og breyta því fram og tilbaka. Þetta var gert á svona nokkra mánaða fresti mömmu stundum til mikillar gleði eða þannig. Íbúðin sem ég bý í núna býður ekki upp á neina möguleika á að endurraða húsgögnum eða einhverju þvíumlíku sem myndi gleðja hjartað mitt mikið. Við höfum reyndar í gegnum tíðina skipt út nokkrum húsgögnum sem hefur gert heilmikið fyrir rýmið og ég er alveg sátt með þetta eins og er en mig langar samt alltaf að breyta til af og til.

En þegar staðan er svona þá er bara eitt að gera og það er að ráðast á herbergið hennar Brynju og græja og gera. Ég hef svolítið verið að færa rúmið hennar fram og tilbaka og skipulagt restina eftir því en hún var með lága upphækkun á rúmið sitt sem er frá Flexa sem gerði það að verkum að undir því skapaðist smá leikpláss sem er fínt þar sem herbergið hennar er svo lítið. Flexa rúmin eru rosalega sniðug og hægt að kaupa allskonar aukahluti sem hægt er að poppa rúmin skemmtilega upp. Sjá hér.

Að undanförnu hefur mér reyndar fundist þetta fína leikpláss vera meira bara draslarageymsla og hefur þessi upphækkun það í för með sér að það er einungis hægt að hafa rúmið á einum stað í herberginu. Þegar barnið tók svo upp á því að handleggsbrotna um daginn þá ákvað ég að nú væri sniðugt að nýta tækifærið og lækka rúmið niður og auðvelda henni það að koma sér upp í rúm á kvöldin. Ekki skemmdi það svo fyrir að ég fékk að breyta og græja og gera. Við mæðgur ákváðum að skipta út gardínum í leiðinni sem voru með mynd af Bangsímon á sem verður að segjast að er orðið aðeins of barnalegt fyrir skvísu sem er að verða 7 ára á árinu. Við fórum því í Ikea og skoðuðum efni og keyptum skemmtilegt efni sem ég saumaði gardínur úr. Efnið kostaði samtals 2600 kall. Við ákváðum svo að kaupa einhverja sæta púða til að hafa í rúminu hennar og keyptum fjögur stykki í Rúmfatalagernum og púðaver með. Samtals á 2700 kr. Við ákváðum svo að skipta út bastkörfunum sem dótið hennar var í og keyptum fjóra Dröna kassa í Ikea. Samtals á 3980 kr. Þá var bara eftir að kaupa fallegt rúmteppi en við fundum ekkert sem okkur fannst henta. Þá kom mamma okkur til bjargar með gamalt rúmteppi sem hún ætlaði að setja í nytjagám. Ég tók það og minnkað og fékk Brynja annan helminginn til að nota sem rúmteppi en hundurinn fékk restina til að nota sem bæli inni í búri og er hann núna eins og kóngurinn í ríki sínu á vínrauðu þykku vatteruðu rúmteppi!

Við erum rosa ánægðar með breytinguna og nú er bara spurning hversu lengi við höldum okkur við þetta áður en mamman fer að klægja í fingurna aftur að snúa öllu við ;)
 


Fyrir




Eftir


Eplakaka framhald

Prófaði uppskriftina sem ég nefndi um daginn sem ég fékk frá Hörpu vinkonu. Hún var alveg hrikalega góð og pabbi sem var yfirsmakkari fannst hún betri sem og okkur hinum. Hefði samt þurft að minnka saltmagnið sem gefið er upp í uppskriftinni en það var of mikið. Kakan var mjúk að innan en rosa krönsí ofan á og með svona pínu karamellukeim. Alveg mega góð með þeyttum rjóma.

Hérna kemur uppskriftin:
  • 4 epli
  • 1 tsk kanil
  • 100 gr smjör
  • 2,5 dl sykur
  • 150 gr hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1,5 tsk salt
  • 1 egg, upphrært
Hitið ofninn í 200° og smyrjið bökuform með smjöri. Afhýðið eplin og fjarlægið kjarnana. Skerið eplin í þunnar sneiðar og leggið í bökuformið. Stráið kanil yfir.
Bræðið smjörið og látið það kólna. Blandið þurrefnunum saman í skál. Hrærið eggið upp með gaffli eða vispi. Blandið smjöri og eggi saman við þurrefnin. Breiðið deigin yfir eplin og stráið smá kanil yfir. Bakið í neðri hlutanum á ofninum í 40 mínútur. Berið fram með ís eða rjóma.

Friday, April 12, 2013

Eplakaka

Síðan Jökull fæddist hef ég verið í litlum mömmuhóp með góðri vinkonu og fleirum sem við köllum krúttmúttur. Við höfum verið að hittast einu sinni í viku og skiptumst á að bjóða heim í morgunkaffi og spjall. Þó að Jökull sé byrjaður hjá dagmömmu þá hef ég reynt að ná einstaka hitting og fyrst hann átti tíma í 10 mánaða skoðun í gærmorgun ákvað ég að nýta tækifærið og bjóða þeim svo heim í kjölfarið og leyfa litla dekurdýrinu að fá frí hjá dagmömmunnum og vera heima í kósý og dekri hjá mér :)

Ég hef lengi verið að leita að hinni fullkomnu eplaköku en ekki fundið enn. Góð eplakaka með þeyttum rjóma eða ís er alveg delish! Ákvað að prófa eina uppskrift í gær fyrir stelpurnar sem var góð en ekki nógu góð. Fékk svo senda uppskrift frá einni krúttmúttunni í gær af köku sem ég smakkaði hjá henni og var allt sem góð eplakaka, að mínu mati, á að vera; mjúk, með fullt af eplum, krönsí að ofan og með fullt af kanil. Hlakka til að prófa hana :p Læt vita hvernig heppnast :)


Tuesday, March 26, 2013

Kjúklingabaka aka pizza ;)

Í matinn í kvöld skellti ég í eitt af mínu uppáhalds. Kjúklingaböku eða pizzu réttara sagt. Fékk æði fyrir þessu eftir að Saffran opnaði og ég smakkaði bökurnar þeirra. Ákvað að gera mína eigin útgáfu sem ég skelli í svona endrum og eins sérstaklega þegar ég á eins og eina kjúklingabringu sem ég þarf að láta duga fyrir okkur öll.

Í grunninn er þetta vel grófur pizzabotn, ofan á set ég pizzasósu sem ég poppa aðeins upp með hvítlauk, ítölsku kryddi og tómatpúrru, mozzarella ostur, kjúklingabringa í smáum bitum og smá hreinn rjómaostur. Þegar þetta er svo komið út úr ofninum dúndra ég á þetta fullt af rucola, ferskum rauðlauk, tómötum og drissla svo homemade hvílauksolíu út á. Algjörlega delissssh..... :)


Monday, March 11, 2013

Tómatlöguð kjúklingasúpa með karrý

Mér finnst hrikalega skemmtilegt að búa til súpur. Skera niður allskonar skemmtilegt úr ísskápnum, skutla í pott og malla í smá tíma, krydda með dassi af hinu og þessu, peppa upp með tómatpúrru, rjómaosti, rjóma eða bara því sem ég á við hendina. Gaman að gera slatta magn og eiga í hádegismat daginn eftir og kannski bara líka daginn þar á eftir. Verst bara að fólkið heima hjá mér er voðalega lítið fyrir súpur þannig ég geri þær ekki eins oft og mig myndi langa til.

Ég fékk rosalega góða súpu um daginn hjá tengdamömmu sem ég er búin að gera nokkrum sinnum, samt aldrei nákvæmlega eftir uppskriftinni. Hún var reyndar í rosalega stórum hlutföllum þannig ég minnkaði hana aðeins. 

Hér kemur uppskriftin eins og ég er að malla til að eiga fyrir kvöldið í kvöld:

2 kjúklingabringur, skornar í bita og steiktar á pönnu
1/2 rauð paprika, smátt skorin
1/2 græn paprika, smátt skorin
2 gulrætur, smátt skornar
lúka af smátt skorinni sætri kartöflu
1  hvítlauksgeiri, saxaður
1/2 laukur , smátt skorinn
1 msk olía
1 dós saxaðir tómatar
1 teningur af kjúklingakrafti
1-1/2 msk karrý
smá kjúklingakrydd
1,5 lítrar vatn
1/2 peli rjómi
1 dós tómatpúrra
100 g rjómaostu
salt og nýmalaður pipar

Elska þessa liti! :)


Aðferð:

Olían hituð í stórum potti og grænmetið steikt í smá stund. Vatninu, tómatpúrrunni, karrýinu, kjúklingateningnum og söxuðum tómötum bætt saman við. Þessu er leyft að malla þangað til grænmetið er orðið mjúkt og fínt eða í ca. 30 mínútur. Kjúklingnum svo bætt í súpuna þegar búið er að steikja hann á pönnu uppúr smá olíu og kryddaður með kjúklingakryddi og salti og pipar. Allt soðið við vægan hita í 10 mínútur. Rjóminn og rjómaosturinn fer svo síðast í og svo kryddað með salt og pipar eftir smekk og jafnvel meira karrý ef fólk er til í svoleiðis. 
Meðlætið á þessum bæ verður svo sýrður rjómi, rifinn ostur, nachos flögur og jafnvel heimabakað brauð ef verð í stuði á eftir og ef erfðaprinsinn leyfir.  

Þessi er bragðgóð og pínu sterk og hægt að leika sér með hana og demba bara því í hana sem maður á þá stundina inn í ísskáp. 

Mæli með henni :)